Nýjast á Local Suðurnes

Samherji stefnir á 45 milljarða verkefni á Suðurnesjum

Samherji fiskeldi áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi. Verkefnið verður unnið í þremur áföngum á næstu 11 árum.

Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Heildarfjárfesting er áætluð ríflega 45 milljarðar króna en stjórn Samherja hefur ákveðið að leggja til fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins. Ráðgert er að leita til fleiri fjárfesta þegar kemur að frekari stækkun landeldisins.

Landeldisáformin í Auðlindagarðinum teljast stór í samanburði við önnur landeldisverkefni sem nú eru í undirbúningi á alþjóðavísu, segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins. Fjölmörg störf verða til á framkvæmdatímanum og á annað hundrað störf við landeldið þegar vinnsla á afurðum hefst.

Vinna við matsferli, leyfismál og hönnun er hafin en ráðgert er að ljúka því ferli á næsta ári. Samkvæmt áætlunum Samherja fiskeldis mun seiðaeldi við fyrsta áfanga hefjast í upphafi árs 2023 og áframeldi og vinnsla á afurðum á árunum 2024 og 2025. Í fyrsta áfanga verður framleiðslan 10.000 tonn af laxi og áætluð fjárfesting upp á 17 milljarða króna. Í öðrum áfanga verður bætt við 10.000 tonnum og í þriðja áfanga 20.000 tonnum. Ef allt gengur að óskum verður landeldið í Auðlindagarðinum komið í full afköst á árinu 2032.

Samherji fiskeldi, sem er félag í samstæðu Samherja, er nú þegar með nokkur umsvif á Suðurnesjum en fyrirtækið rekur frumvinnsluhús og fullvinnslu í Sandgerði, eldisstöð á Stað við Grindavík og eldisstöð á Vatnsleysuströnd. Þar að auki er fyrirtækið með landeldi á laxi á Núpsmýri við Kópasker og seiðastöð á Núpum í Ölfusi.

HS Orka rekur í dag tvær jarðvarmavirkjanir, í Svartsengi og á Reykjanesi, auk einnar vatnsaflsvirkjunar á Brú í Tungufljóti í Biskupstungum. Í Auðlindagarðinum í kringum jarðvarmavirkjanir HS Orku hefur byggst upp einstakt samfélag fyrirtækja sem nýta affallsstrauma frá virkjununum í starfsemi sinni. Fyrirtækin í Auðlindagarðinum eru í dag ellefu talsins og verður landeldi Samherja fiskeldis það tólfta. Framkvæmdin við fyrirhugað eldi styður við markmið Auðlindagarðsins um nýtingu affallsstrauma frá jarðvarmavirkjunum sem í dag renna að hluta ónýttir til sjávar. Aðstæður í Auðlindagarðinum eru hagstæðar þegar kemur að aðgengi að raforku, jarðhita, ylsjó og jarðsjó.

Mynd: Samherji