Nýjast á Local Suðurnes

Yfir þúsund skjálftar við Grindavík

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni mælist í grennd við Grindavík, en töluvert hefur dregið úr hrinunni. Frá miðnætti hafa um 150 jarðskjálftar mælst, sá stærsti 3,3 að stærð kl.09:00 og bárust tilkynningar frá Grindavík um að skjálftinn hafi fundist í kjölfarið.

Frá 21. janúar hafa yfir 1000 skjálftar verið staðsettir á svæðinu, þar af um 700 yfir helgina og voru þeir flestir staðsettir í SV/NA stefnu um 2 km NA af Grindavík.

Nýjasta GPS úrvinnslan sýnir áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Í heildina hefur land risið yfir 4 cm frá 20. janúar sl. Gervitunglamyndir sýna sömu þróun. Með landrisi má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-9 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Líklegast er að virknin ljúki án eldsumbrota.