sudurnes.net
Yfir 100 manns tóku höndum saman á vinnudegi í leikskólanum Tjarnarseli - Local Sudurnes
Það var heldur betur líf og fjör á árlegum vinnudegi í leikskólanum Tjarnarseli sem var haldinn síðdegis þann 7. júní síðastliðinn. Markmið dagsins að þessu sinni var að fegra og snyrta garðinn, smíða, mála og gróðursetja. Mætingin fór fram úr björtustu vonum, heilu fjölskyldurnar mættu með bros á vör og margar með verkfæri í farteskinu. Þegar mest var voru 109 manns við vinnu í garðinum, börn, foreldrar, afar, starfsmenn Tjarnarsels og fjölskyldur þeirra. Gamlir nemendur litu við og réttu fram hjálparhönd og maður frá Garðyrkjufélaginu aðstoðaði við að gróðursetja berjarunna og tré. Allt var þetta gert í sjálfboðavinnu með jákvæðni og dugnaði. Að sjálfsögðu var boðið upp á grillaðar pylsur með öllu tilheyrandi fyrir þennan þróttmikla hóp. Vinnudagurinn er hluti af þróunarverkefninu Áskoranir og ævintýri sem hófst vorið 2013 þegar flötu útisvæði Tjarnarsels var umbylt í náttúrulegan garð sem er endalaus uppspretta leikja, skapandi starfs og útináms. Kennarar Tjarnarsels fóru í námsferð til Tékklands nú í lok maí til að skoða náttúrleg útileiksvæði og tók Sarka Mrnakova uppeldisfræðingur, sem var verkefnisstjóri þróunarverkefnisins, á móti hópnum. Þegar er búið að framkvæma nokkrar hugmyndir í garði leikskólans sem kennarar sáu í Tékklandi og má þakka það vaska vinnufólkinu. Þess má geta að [...]