Nýjast á Local Suðurnes

Vindverkir og hárkollur – Funheitur FöstudagsÁrni

Smá kauðalegt að mynd af fyrirsætunni og þyrluflugmanninum Ásdísi Rán sé notuð til að selja hárkollur á aliexpress. Um er víst að ræða hágæða kollur fyrir alvöru dragdrottningar frá Brasilíu og eru á verði frá 98 dollara. Ásdís Rán er glæsileg á myndinni, en áður en maður veit af er maður farinn að spá í hverjum lokk og farinn að halda að ísdrottningin sé bara með kollu á myndinni. Hefði samt ekki verið nær að nota frekar mynd af indversku prinsessunni okkar, Leoncie sem fer ekki út úr húsi nema með kolluna vel greidda.

Öll þurfum við að leysa vind og þekkjum öll aðstæður þar sem við erum í miklum vandræðum þar sem ekki er hægt að sleppa bombunni út án þess að verða sér til skammar.

arni arna keflavikurn

Meltingarfræðingurinn Lisa Ganjhu greindi á dögunum frá því að gosdrykkja og sérstaklega ef það er drukkið með röri veldur miklum vindgangi. Gervisykur og mjólkurvörur hafa líka áhrif á þrýstinginn þarna að aftan, en það sem kom mér á óvart er að brokkolí, kál og rósakál er á listanum líka. Þetta grænmeti á líkaminn í vanda með að melta og því veldur það vindgangi og veseni. Niðurstaðan hjá Lisu er að við þurfum að borða hollara fæði til að draga úr aftansöng.

Ég er með baðhandklæði í stofusófanum hjá mér um þessar mundir. Dramatíkin er slík í jólaauglýsingu Icelandair að maður þarf að beita sér hörku til að grenja ekki úr sér augun. Strákgreyið segi ég nú bara, liggjandi á grút skítugri mottunni í herberginu sínu, kvalinn úr söknuði, en eins og við vitum öll þá er þetta allt í kaffinu. Icelandair kemur nú eins og oft áður með tilfinningaþrungna auglýsingu fyrir hátíðirnar sem stinga mann í hjartað og kveikja á tárkirtlunum með auðveldum hætti.

Ólafía golfsnillingur náði ótrúlegum árangri sl. sunnudag og eðlilega er þjóðin stolt af þessum nýja afreksmanni í íþróttum á heimsvísu – ég allavega hélt að þjóðin væri að rifna úr stolti, þar til að ég sá á mánudagskvöldið að mest lesna fréttin á mbl.is var að Lóa Pind er á lausu. Þessi þjóð sko segi ég nú bara.

Skandall vikunnar er án efa hæstaréttardómarar og hlutafé þeirra í Glitni á sínum tíma. Ég er nú bara svo vitlaus að ég hélt að dómarar væru varkárir í þáttöku sinni í samfélaginu til að koma í veg fyrir að hægt sé að draga dóma þeirra í efa. Málið hefur verið blásið upp og það virkilega bítur í samviskuna og því miður veldur því að maður hefur áhyggjur af þeim dómum sem hafa fallið. Eru dómarnir reistir á hlutleysi dómaranna með að sjálfsögðu löggjöfina að leiðarljósi ?
Fjórir dómarar áttu hlut í Glitni á sínum tíma og fyrir hrun vann Glitnir 3 dómsmál fyrir Hæstarétti. Er þetta ekki svipað og fá Þorstein hjá Samherja til að dæma um ágæti kvótakerfisins?

Besti brandara vikunnar á Logi Már Einarsson,formaður Samfylkingarinnar. Ég vissi ekki að Logi væri svona mikill gleðigjafi. Hann er ekki hissa á að Framsóknarflokknum sé ekki boðið að samningaborðinu í stjórnarmyndunarviðræðum.
Framsóknarflokkurinn þarf að taka til heima hjá sér – sagði Logi orðrétt við fjölmiðla. Bíddu við, þrátt fyrir skandal Sigmundar Davíðs þá fékk Framsóknarflokkurinn mun meiri meðbyr í nýliðnum Alþingiskosningum en Samfylkingin. Þarf ekki stundum að reita arfann í eigin garði áður en maður gagnrýnir garð nágrannans?

Fjárlagafrumvarpið hefur verið lagt fram og eins og alltaf er það jafn óvinsælt. Það vilja allir stærri sneið af kökunni og það er bara eðlilegt. Það sem kemur mér mest á óvart eru skattahækkanir sem eru ónauðsynlegar að mínu mati. RÚV gjaldið hækkar, ég er á því að það sé hægt að taka betur til í Efstaleitinu. Nú hækkanir á áfengi koma mér líka í opna skjöldu. Ekki skrítið að fólk sé í meira mæli að brugga sitt eigið, verð á áfengi er svívirðilega hátt. Meðal launþegi er heila klukkustund að vinna sér inn fyrir einu sterku vínglasi á bar sem er auðvitað fáranlegt. Skattahækkanirnar eiga að skila rúmum þremur milljörðum í tekjur, ég spyr gat ekki rekstarafgangurinn verið 27 milljarðar í stað 30 og sleppt þessari vitleysu. Bjarni Ben fær skítaköku vikunnar frá mér.

Minn ágæti vinur Ásmundur Friðriksson þingmaður og Garðbúi, vill standa vörð um kristni í íslensku samfélagi. Jú þetta er hugljúf hugsun sem margir þeirra sem eru komnir eru yfir miðjan aldur styðja. Ég er ekki sammála vini mínum hvað þetta varðar. Trúarbrögð eiga þá að koma fram í uppeldi og innan veggja heimilisins. Við eigum ekki að kenna eina trú fram yfir aðra eða senda börn í heimsóknir til trúarfélaga. Ég er samt á því að það auki víðsýni í samfélaginu ef það væri einn kúrs á grunnskólastigi þar sem farið er yfir trúarbragðafræði. Að börn fái innsýn og skilning í misjöfn trúarbrögð og geti þá um leið haft skilning og virt jafnaldra sem koma frá misjöfnum trúfélögum.

Æi ég er hálf feginn að skattgreiðendur þurfi ekki að borga nímenningunum skaðabætur fyrir handtöku í Gálgahrauni. Þessir ljúfu einstaklingar fóru með góðan vilja að vopni til mótmæla en eins og oft vill verða er gengið of langt í slíku. Það er mikilvægt að umhverfissinnar komi sínum skoðunum á framfæri enda oft margt rétt og skylt í þeim efnum. En stemmingin varð súr þarna og lögreglan var að sinna vinnunni sinni. Gleymum því ekki að mótmælendur fara af fúsum og frjálsum vilja til mótmæla og það er yfirleitt einhver handtekinn í kjölfarið – það á ekki að kosta okkur skaðabætur það er á hreinu.

Góða helgi