Nýjast á Local Suðurnes

Vinasetrinu verður lokað um áramót – Um 30 börn dvelja á heimilinu um helgar

Vinasetrinu, sem býður upp á helgardvöl fyrir börn sem þurfa á stuðningsfjölskyldum að halda, verður lokað um áramótin vegna fjárskorts. Vinasetrið hefur haft aðsetur á Ásbrú, en Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hefur nú selt húsnæðið og því ljóst að starfsemin getur ekki haldið áfram að óbreyttu.

Þetta kemur fram í Fréttatímanum, en þar er rætt við Silju Huld Árnadóttur, annan eiganda setursins. Að sögn Silju Huldar nýta um 30 börn sér þjónustu Vinasetursins og hafa dvalið um helgar á heimilinu. Vinasetur fékk styrk úr Atvinnumálasjóði kvenna sem samfélagslegt nýsköpunarverkefni í eigu kvenna þegar það var stofnað fyrir fjórum árum. Helgardvöl fyrir hvert barn kostar um 34.900 en Félagsþjónustur víða um land hafa, að sögn Silju Huldar, kvartað yfir því að úrræðið sé of dýrt og sum sveitarfélög senda þangað aldrei börn vegna kostnaðar.

Alls starfa 14 manns í hlutastarfi hjá heimilinu, sem er rekið án ágóða og undir eftirliti Barnaverndarstofu. Börnin, sem eru á aldrinum 6-15 ára, koma klukkan 4 á föstudögum og fara klukkan 3 á sunnudögum. Þeim er skipt niður í hópa eftir aldri, 6 til 8 ára börn eru saman, 9 til 11 ára, og unglingarnir eru út af fyrir sig. Silja Huld segir að áherslan sé á samveru, nánd, upplifanir og félagsleg samskipti, það sé stunduð útivera, farið í sund og leiki. Þá leggi þær áherslu á að hafa heimilið frjálslegt og heimilislegt en forðast stofnanamenningu.

Þá var greint frá því að dögunum að Reykjanesbær hyggst loka Baklandi, úrræði sem Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hefur boðið upp á fyrir börn sem fá ekki þann stuðning sem þau þarfnast heima hjá sér, til dæmis við heimanám, auk þess sem Baklandi var ætlað að þjálfa þau í athöfnum daglegs lífs og efla félagsfærni þeirra og félagsleg tengsl.