Nýjast á Local Suðurnes

Vilja tengja strætókerfið við Leifsstöð án tafar

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vilja að starfsfólki í flugstöð Leifs Eiríkssonar verði gert auðveldara að sækja vinnu með tafarlausri tengingu strætókerfis við flugstöðina.

Í bókun, sem sjá má hér fyrir neðan, segir að til standi að framkvæma umrædda tengingu, en þó ekki fyrr en núverandi samningur við rekstraraðila verður endurskoðaður.

“Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að breytingum á almenningssamgöngum til og frá Leifsstöð verði flýtt þannig að starfsfólk eigi auðveldara með að sækja vinnu sína.

Í viðtali í fréttum við sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs kom fram að ekki yrði ráðist í neinar breytingar fyrr en við endurskoðun samnings sem er eftir of langan tíma.

Þessi tímarammi er að okkar mati óásættanlegur og leggjum við til að ráðist verði í endurskoðun á tengingu strætókerfisins við Leifsstöð án tafar.“