Nýjast á Local Suðurnes

Vilja leggja áherslu á nafnið Reykjanesbær í ferðaþjónustunni

Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir kynnti stefnumótun um ásýnd og kynningu á Reykjanesbæ á súpufundi sem bærinn hélt í Hljómahöll í gær. Fjölmörg áhugaverð innlegg voru á fundinum og fóru fundargestir í hugmyndavinnu á meðan þeir gættu sér á kjötsúpu í boði Víkingaheima.

Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir verkefnastjóri ferðamála í Reykjanesbæ fór yfir samtaka sýn á ferðaþjónustu þar sem áhersla yrði á að tala sama tungumál. Þar sagði Hrafnhildur skipta miklu máli hvaða orðfæri aðilar í ferðaþjónustu notuðu við kynningu á svæðinu. Hrafnhildur lagði inn þá hugmynd að kynna hverfin fjögur sem mynda Reykjanesbæ, Keflavík, Njarðvík, Hafnir og Ásbrú með sinni sérstöðu og leggja áherslu á að þau væru í Reykjanesbæ. Með þeim hætti væri hægt að halda hverfanöfnunum inni en leggja jafnframt áherslu á nafnið Reykjanesbæ. Eftir að gestir fundarins höfðu gætt sér á súpu frá Víkingaheimum og hugsað um sérkenni hvers hverfis voru þau listuð upp fyrir frekari stefnumótunarvinnu.

Þuríður Halldóra Aradóttir verkefnastjóri Markaðsstofu Reykjaness kynnti Mannamót 2016, sem markaðsstofur landshlutanna standa að og haldin verður í flugskýli flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli 21. janúar. Tilgangur Mannamóts er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um Mannamót hér.

Arnar Hafsteinsson verkefnastjóri leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku hjá Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs kynnti námið sem unnið er í samstarfi við Thomson Rivers University í Kanada. Hugmyndir spruttu fram um hvernig nota mætti Reykjanesið í vettvangsnám en helstu  hindranir eru að hér eru hvorki ár né jöklar, en hvorutveggja er mikilvægt í vettvangsnámi. Sjórinn og hraunið gætu hins vegar nýst. Nánari upplýsingar um námið má nálgast hér.

Eggert S. Jónsson verkefnastjóri Reykjanes Geopark fjallaði um jarðvanginn, Unesco vottunina og sagði frá verkefnum tengdum jarðvanginum. Fram kom í máli Eggerts að sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir innan jarðvangsins gætu nýtt sér vottunina í kynningar- og markaðsskyni en hjá öðrum jarðvöngum í heiminum hefur það reynst til framdráttar. Þá er búið að gefa út kennsluefni um jarðvanginn fyrir leikskólabörn og fyrirhugað er að gefa út kennsluefni fyrir grunnskóla- og framhaldsskólanema. Reykjanesbær rekur Gestastofu jarðvangsins í Duus safnahúsum. Hægt er að fræðast meira um jarðvanginn hér.