Nýjast á Local Suðurnes

Vilja bregðast við rekstrarvanda íþróttafélaganna – Leggja til að veittir verði milljóna styrkir

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar hefur lagt til við bæjarráð að brugðist verði við rekstravanda körfu- og knattspyrnudeilda Keflavíkur og Njarðvíkur með því að leggja hvoru félagi til sex milljónir króna. Formenn deildanna höfðu fyrir nokkru óskað eftir aðstoð bæjaryfirvalda vegna rekstrarvanda.

Á fundi  Íþrótta- og tómstundaráðs þann 18. maí síðastliðinn kom fram að formenn deildanna hafi fylgt erindi sínu úr hlaði og kom fram í máli þeirra að mikilvægt sé að ráða starfsmann til að hjálpa til við rekstur félaganna.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar samþykkir að leggja til við bæjarráð að aðalstjórnum Keflavíkur og Njarðvíkur verði veittur styrkur að upphæð kr. 6.000.000, hvoru félagi, og verði styrknum úthlutað til meistaraflokka körfuknattleiksdeilda og knattspyrnudeilda félaganna, kr. 3.000.000.- til hvorrar deildar.