Nýjast á Local Suðurnes

Vildu fjármagna gervigrasvelli með sölu lóða

Starfshópur sem skipaður var til þess að kanna hvort þörf á væri á nýjum gervigrasvelli í Reykjanesbæ lagði til að byggður yrði nýr völlur vestan við Reykjaneshöll auk þess sem lagt yrði gervigras bæði á Nettóvöll Keflvíkinga og Njarðtaksvöll Njarðvíkinga.

Starfshópurinn heimsótti meðal annars forsvarsmenn Stjörnunnar og Vals, en bæði félögin ráðlögðu hópnum að skipta yfir í gervigras þar sem nýtingin væri mun betri en á völlum með hefðbundnu grasi.

Starfshópurinn sem skipaður var þremur fulltrúum Reykjanesbæjar og framkvæmdastjórum knattspyrnudeilda Keflavíkur og Njarðvíkur lagði til að verkefnið, bygging eins vallar og lagning gervigrass á tvo, yrði fjármagnað með sölu lóða sem yrðu til á núverandi æfingasvæði félaganna vestan við Reykjaneshöll.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar hefur hins vegar lagt til að eftirfarandi framkvæmdir verði settar á fjárhagsáætlun en jafnframt að uppbygging aðstöðu og íþróttamannvirkja verði reglulega endurskoðuð og mögulega flýtt.

2019
• Unnið með niðurstöður Capacent og áfram verði unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í góðri samvinnu við íþróttahreyfinguna.
• Teiknað upp framtíðarsvæði við Afreksbraut í samstarfi við umhverfissvið og íþrótta- og tómstundaráð. Áhersla lögð á að tryggja fjármagn fyrir nýjan sameiginlegan æfingagervigrasvöll sem nýtist báðum félögunum. Unnið verði í samvinnu við innkaupastjóra Reykjanesbæjar og umhverfissvið að útbúa útboðsgögn og kostnaðaráætlun fyrir æfingagervigrasvöll.
• Áhersla lögð á að tengja hjóla- og göngustíga úr nærliggjandi hverfum.

2020
• Hafist handa við byggingu á æfingagervigrasvelli og búningaaðstöðu vestan Reykjaneshallar.
• Ný áhaldageymsla við Reykjaneshöll.
• Áfram unnið að framtíðarsvæði við Afreksbraut í samstarfi við umhverfissvið og íþrótta-og tómstundaráð – Áhersla lögð á að tryggja fjármagn fyrir hönnun á fyrsta áfanga á íþróttahúsi sem hýsir keppnisvöll og félagsaðstöðu fyrir UMFN.

2021
• Hafist handa við fullnaðarhönnun og uppbygginu á íþróttahúsi við Afreksbraut. Á svæðinu við Afreksbraut verður einnig framtíðaraðstaða fyrir fimleikadeild og bardagaíþróttir, aðstaða fyrir skotdeild, lyftingar, golfklúbb ásamt félagsaðstöðu fyrir allar deildir. Þessi áfangi er háður því að Akademíunni verði fundin önnur not eða seld og hvetur íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæ að fara skoða þann möguleika sem allra fyrst.

2022-2026
• Framkvæmdir við byggingu íþróttahúss og áframhaldandi uppbygging íþróttamannvirkja við Afreksbraut.