Nýjast á Local Suðurnes

Viðkunnanlegur Samkaupsstjórnandi á meðal 40 efnilegustu

Verslun Nettó við Krossmóa

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, er á meðal 40 efnilegustu stjórnenda í viðskiptalífinu árið 2020, 40 ára og yngri. Listinn er tekinn saman af almannatengslafyrirtækinu Góð samskipti og er þetta í annað skipti sem slíkur listi er birtur af fyrirtækinu.

Gunnar er menntaður viðskiptafræðingur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og situr í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu. Gunnar hefur unnið sig upp innan Samkaupa og var meðal annars áður framkvæmdastjóri Nettó í nokkur ár.

Í umsögn segir að Gunnar hafi mikinn áhuga á stangveiði og búi ásamt fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ. Gunnar þykir viðkunnanlegur og duglegur og vilja margir sjá hann fá frekari tækifæri, en hann var nýlega orðaður við forstjórastól Haga.

Góð samskipti hafa einnig sett saman lista yfir 20 vonarstjörnur í tengslum við valið á 40 stjórnendum, 40 ára og yngri. Vonarstjörnurnar er fólk sem var tilnefnt en komst ekki á aðallistann.

Á þeim lista má finna framkvæmdastjóra tæknisviðs HS Orku, Sunnu Björgu Helgadóttur, en hún starfaði áður hjá ÍSAL, síðast sem framkvæmdastjóri rafgreiningar. Hún varð síðar framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Alvotech og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Codex á Íslandi. Sunna er með B.Sc. gráðu í efna- og vélaverkfræði og meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Sunna Björg er öflugur stjórnandi í iðnaði þar sem konum fer nú loks fjölgandi, segir í umsögn.