sudurnes.net
Verulega dregið úr skjálftavirkni í nágrenni Grindavíkur - Local Sudurnes
Verulega hefur dregið úr skjálftavirkni í nágrenni Grindavíkur að undanförnu en vísbendingar eru um að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum. Þetta kom fram á fundi Vísindaráðs almannavarna sem hittist á fjarfundi fimmtudaginn 30. apríl vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans og ÍSOR, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Suðurnesjum. Í byrjun apríl dró úr landrisi við Þorbjörn og um miðjan mánuðinn lauk þessari seinni landrishrinu. Í kjölfar landrissins mældist sig sem má útskýra með því að jarðskorpan jafnar sig þar sem kvikan í innskotunum kólnar og dregst saman. Á sama tíma hefur dregið verulega úr skjálftavirkni. Þetta bendir til þess að kvikuinnflæði undir Þorbjörn sé lokið í bili. Þrátt fyrir að ekki mælist lengur landris við Þorbjörn, gætir enn dálítilla landbreytinga á stærra svæði. Eins og þróun atburða hefur verið síðustu mánuði verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum, segir á vef Veðurstofunnar. Veðurstofa Ísland ásamt Jarðvísindastofnun, ÍSOR og HS-Orku mun áfram fylgjast vel með þróun mála á Reykjanesskaga og þeim möguleika að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum. Meira frá SuðurnesjumEkkert landris mælist lengur [...]