Nýjast á Local Suðurnes

Verður heimilislaus eftir tvo daga: “Hélt í heimsku minni að þetta myndi aldrei líðast í Reykjanesbæ”

Leigutaki hóf að gera viðgerðir á húsnæðinu tveimur dögum áður en fjöskyldan þarf að flytja, eftir að hafa neitað ítrekað að fara í viðhald á húsnæðinu

Allt stefnir í að Sigrún Dóra Jónsdóttir og tvö af fjórum börnum hennar verði heimilislaus á miðvikudag, en þá þurfa þau að yfirgefa núverandi leiguhúsnæði sitt í Innri-Njarðvík. Sigrún segist í færslu í lokuðum hópi íbúa í Reykjanesbæ hafa reynt allt til að vekja athygli bæjaryfirvalda og stjórnvalda á málinu.

“Ég hreinlega trúði á það mannlega í fólki og gerðist svo vitlaus að halda að með þessari löngu baráttu, skrifum og samtölum við bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar, hvern einn og einasta fulltrúa í bæjarstjórn, endalausar beiðnir og tilkynningar um sjálfa mig til barnaverndarnefndar sem og felagsþjónustu, erindi og skrif til ALLRA ráðuneyta og sjálfan forseta Íslands gæti það ekki staðist að ég og börnin mín yrðum sett út á götu.” Segir Sigrún í færslu sinni.

Þá vandar Sigrún leigusölunum ekki kveðjurnar í færslunni, en samkvæmt henni hefur leigufélagið neitað að gera þær endurbætur sem þarf til þess að íbúðin sé hæf til búsetu. Íbúðin var síðan seld öðru leigufélagi fyrir skömmu, sem einnig harðneitaði að gera endurbætur, þegar eftr því var óskað, en hóf þær þó nú tveimur dögum áður en fjölskyldan þarf að yfirgefa húsnæðið. Þá harðneitaði fyrirtækið að framlengja leigusamningnum, að sögn Sigrúnar.

“Hér hef ég búið síðan 2008, í núverandi handónýtri íbúð í eitt og hálft ár og staðið í endalausri baráttu við leigusala, búið meira og minna í stofunni með alla barnahrúguna vegna ofnæmis, veikinda oþh.
Nýtt leigufélag á allt í einu íbúðina, tekur enga ábyrgð á ástandi hennar, rannsóknum og kvörtunum/sönnunum og harðneitar að framlengja leigusamning hvað þá að gera endurbætur.” Segir Sigrún.

Sigrún segist einnig hafa sótt um allar þær íbúðir sem auglýstar hafa verið á leigu, jafnvel atvinnuhúsnæði, en ekkert hafi gengið. Þá segist hún hafa misst trúnna á félagslega kerfinu.

“Ég hef ekki einu sinni geymslu undir búslóðina mína og sótt um þær örfáu íbúðir sem auglýstar eru til leigu. Ég hef leitað uppi eigendur tómra íbúða á sölu og grátbeðið um atvinnuhúsnæði til leigu. Þar að auki hýsi ég þessa síðustu daga mína sem ég hef þak yfir höfuðið vin minn sem er á götunni og móðir hans býr í fellihýsi á tjaldstæði!! Nágrannar mínir neituðu að leyfa henni að tjalda fyrir neðan svalirnar mínar þar sem það lúkkar ekki vel og eru endalaust pirruð yfir því að búslóð okkar beggja liggur í nokkra daga í sameiginlegu geymslurými okkar í sameign.

Ég er ekki bara búin að missa trúna á Íslandi og félagslegakerfinu og Reykjanesbæ heldur líka á náunganum/samborgurum sem ættu að standa saman.” Segir Sigrún í færslu sinni.