Nýjast á Local Suðurnes

Veðrið nær hámarki um hádegisbilið – Fólk hvatt til að halda sig heima

Veðurstofa Íslands spáir austan hvassviðri eða stormi með snjókomu og skafrenningi í dag. Samkvæmt spá Veðurstofu mun veðrið ná hámarki um hádegisbilið. Lögregla og björgunarsveitir hafa hvatt þá sem geta til að halda sig heima og lögregla ítrekar fyrir fólki að vera ekki á ferð á illa útbúnum bílum.

Veðrið er seinna á ferðinni en spár gerðu ráð fyrir og rétt fyrir klukkan átta í morgun höfðu engin útköll borist Lögreglunni á Suðurnesjum vegna þess. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eru í viðbragðsstöðu.

Lögreglan á Suðurnesjum hvetur fólk til að halda sig heima hafi það tök á því en í færslu sem lögreglan birti  á Facebook-síðu sinni í gær segir meðal annars:

Jæja þá er vetur konungur farinn að minna á sig og fyrsta viðvörun okkar í vetur send út. Spurning um að þeir sem það geta eyði morgundeginum bara í smákökubakstur, lagi sér heitt kakó og hlusti á jólalögin. Við verðum á vaktinni að sjálfsögðu.

Akstur Strætó á milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar var felldur niður í morgun og hefur öllum ferðum verið aflýst þar til veðrið gengur niður.