sudurnes.net
Vatnsgæði eins og best verður á kosið - Local Sudurnes
Vegna umfjöllunar í síðasta tölublaði Stundarinnar um vatnsgæði í Reykjanesbæ er rétt að eftirfarandi komi fram. Umfjöllun blaðsins byggir að mestu á staðreyndum úr fortíðinni, þegar Varnarliðið ríkti á Ásbrú. Þá bárust fréttir af því að mælingar hersins sýndu blýinnihald í neysluvatni í einhverjum byggingum, en slíkt hefur aldrei fengist opinberlega staðfest. Ljóst er að hafi þetta verið rétt, hafi skýringanna verið að leita í innanhúslögnum þeirra bygginga, enda hafa mælingar ætíð sýnt að gæði vatns í vatnsbólum byggðarlagsins sé í góðu lagi. Eftir að varnarliðið yfirgaf svæðið voru tekin vatnssýni á nokkrum stöðum og komu þau sýni öll vel út. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hvatti þó Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar að fylgjast með vatnslögnum í húsum á Ásbrú þar sem meira blýmagn mældist þar vegna lagna, þó það væri vel innan allra heilbrigðismarka. Reglulegar mælingar síðustu ár hafa ætíð sýnt sömu niðurstöðu; að vatnsgæði séu mjög góð í vatnsbóli og í dreifikerfinu. Mælingar Heilbrigðiseftirlitsins eru samkvæmt viðurkenndum og alþjóðlegum stöðlum sem byggja á mælingum á upprunastað og dreifingarkerfi en Stundin notast við þá aðferð að mæla vatn sem staðið hefur óhreyft í sólarhring og því geta þær niðurstöður sýnt annað. Meðal annars þar sem þá mælist einungis það vatn sem liggur í blöndunartækjunum [...]