Nýjast á Local Suðurnes

Vandræði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar – Fjölmörg útköll lögreglu

Flugfarþegi sem var á leið til Toronto um helgina, í gegnum Keflavíkurflugvöll, framvísaði ítölsku vegabréfi sem reyndist vera ólöglega útgefið. Við nánari athugun kom í ljós að það var stolið. Viðkomandi var færður á lögreglustöð til skýrslutöku og er málið komið í hefðbundinn farveg.

Óskað var aðstoðar lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina vegna mjög ölvaðs farþega í brottfararsal í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafði hann verið með ógnandi framkomu við gesti og gangandi. Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndist maðurinn vera í annarlegu ástandi og óviðræðuhæfur. Hann var því handtekinn vegna ölvunar á almannafæri og færður á lögreglustöð.

Þá var tveimur ferðalöngum meinað að fara um borð í flug frá Keflavíkurflugvelli þar sem grunur lék á að viðkomandi væru undir áhrifum fíkniefna.

Flugvél sem var á leið frá San Francisco til London var lent á Keflavíkurflugvelli um helgina vegna veikinda farþega. Var hann fluttur með sjúkrabifreið á Landspítalann. Þá var lögreglan á Suðurnesjum kvödd á Keflavíkurflugvöll vegna veikinda farþega í flugi sem var að koma frá Manchester. Sjúklingurinn var fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.