sudurnes.net
Ungmennaráð fær fulltrúa í nefndir og ráð Reykjanesbæjar - Local Sudurnes
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í dag að bjóða ungmennaráði Reykjanesbæjar að tilnefna áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á fundi nefnda og ráða sveitarfélagsins; annarra en barnaverndarnefndar. Um tilraun verði að ræða sem hefjist nú þegar og standi til loka yfirstandandi kjörtímabils. Framhaldið verið ákveðið af nýrri bæjarstjórn, sem tekur við eftir sveitarstjórnarkosningar í vor, í samráði við ungmennaráð þ.m.t. hvort greiða skuli fyrir nefndarsetuna. Verði það niðurstaðan þarf að uppfæra erindisbréf nefnda og ráða. Greinargerð Ungmennaráð Reykjanesbæjar hefur nú um margra ára skeið fundað tvisvar á ári með bæjarstjórn; á vorin og haustin. Síðasti fundur ungmennaráðs og bæjarstjórnar fór fram þ. 16. nóv. sl. Á þeim fundi fluttu 9 ungmenni kjarnmiklar, áhugaverðar og vel undirbúnar ræður um ýmis mál. Í kjölfarið átti undirritaður óformlegan fund með ungmennaráði mánudaginn 29. nóv. sl. þar sem gafst tækifæri til að ræða málin frekar. Á þeim fundi kom fram áhugi ungmennaráðs á að fá tækifæri til að kynnast viðfangsefnum sveitarfélagsins betur og leggja sín lóð á vogarskálarnar með þessum hætti. Það er í samræmi við áherslu um aukið notendasamráð sem m.a. má finna í lögum um félagsþjónustu, og málefni fatlaðra en einnig í samræmi við 12. og 13. greinar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, [...]