Nýjast á Local Suðurnes

Undirrita viljayfirlýsingu vegna sameiningar Kölku og Sorpu – Áhersla lögð á að greina skilmerkilega frá gangi viðræðna

Engin fundur hefur verið haldinn vegna fyrirhugaðrar sameiningar Kölku og Sorpu frá 7. febrúar síðastliðnum, en á síðasta stjórnarfundi Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja (SS) voru lögð fram drög að verkefnadagskrá um framhald sameiningarviðræðnanna.

Framkvæmdastjóri SS upplýsti á fundinum að stjórn Sorpu hafi á fundi sínum 7. mars síðastliðinn samþykkt fyrir sitt leyti drög að viljayfirlýsingu um að vinna enn frekar að sameiningarmálum þessara félaga með hagsmuni heildarinnar í huga og falið formanni sínum að undirrita yfirlýsinguna.

Á síðasta stjórnarfundi samþykkti stjórn SS viljayfirlýsinguna fyrir sitt leyti. Stjórn SS felur formanni að undirrita yfirlýsinguna.

Viljayfirlýsingin er svohljóðandi:

„Kröfur er varða meðferð úrgangs verða sífellt flóknari og strangari. Því er mikilvægt að stöðugt sé leitað hagkvæmra og umhverfisvænna leiða við meðhöndlun úrgangs.

Úrgangur er málefni allra og því nauðsynlegt að aðilar sem sinna úrgangsmálum á vegum sveitarfélaganna og sinna þar með lagaskyldu, sameinist um lausnir eins og kostur er.

Þannig verði hámarks hagkvæmni náð um leið og sem minnst umhverfisleg áhrif úrgangsmeðhöndlunar verða betur tryggð. Stjórnir SORPU bs. og Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf., lýsa þess vegna yfir ríkum vilja til að vinna enn frekar að sameiningarmálum þessara félaga með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi“

Í fundargerð SS kemur fram að gert sé ráð fyrir að næsti fundur aðila verði í þessari viku. Þá kemur einnig fram í fundargerðinni að áhersla hafi verið lögð á að greina vel og skilmerkilega frá gangi viðræðnanna í fundargerðum SS.