Umræður á Alþingi um aukna viðveru hersins – “Herinn skildi eftir samfélag í sárum”

Viðvera bandaríska hersins hér á landi hefur verið til umræðu að undanförnu eftir að fréttamiðill hersins, Stars and Stripes birti fréttir þess efnis að herinn hyggðist leggja tæplega 3 milljarða króna í breytingar á flugskýli á Keflavíkurflugvelli til þess að hægt verði að koma þar fyrir P-8 Poseidon eftirlitsflugvélum.
Umræður um aukna viðveru bandarísks herliðs á Keflavíkurflugvelli fara nú fram á Alþingi, þar benti utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, á að flug rússneskra herflugvéla við Ísland hafi aukist mjög að undanförnu. Hafa rússneskar hervélar t.a.m. flogið upp að landinu alls 48 sinnum á tímabilinu 2006 til 2015 og eru umræddar vélar samtals 107 talsins.
Þá sagði ráðherrann að í ljósi breyttra öryggisaðstæðna í Evrópu, væri fyllsta ástæða til þess að fylgjast með ferðum [rússneskra] kafbáta, meðal annars frá Íslandi.
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar tók einnig til máls og var meðal annars ekki sáttur við viðskilnað hersins árið 2006.
„Ég lít ekki svo á að þeirra viðskilnaður við okkar land árið 2006 hafi verið góður eða til fyrirmyndar. Hann skildi eftir samfélag suður með sjó sem var í sárum, lamað – gríðarlega mikið atvinnuleysi. Ég er ekki búinn að gleyma þeirri sögu allri,“ sagði þingmaðurinn í ræðu sinni.
„Bandaríkjamenn eru ekki að hugsa um hagsmuni Íslendinga eða verja þá sérstaklega. Þeir gæta hagsmuna sinna og eingöngu sinna.“ Sagði þingmaðurinn.