Nýjast á Local Suðurnes

Umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið jafngildir 300 ferðum til tunglsins – Sjáðu tölfræðina!

Árið 2017 flugu rúmlega 185 þúsund flugvélar 253 milljónir kílómetra um íslenska flugstjórnarsvæðið. Það jafngildir rúmlega 300 ferðum til tunglsins og aftur heim. Þessar flugtölur og fleiri má finna í ítarlegri greiningu Isavia á umferð ársins um flugvelli landsins og íslenska flugstjórnarsvæðið.
Millilandafarþegum fjölgar
Árið 2017 fjölgaði millilandafarþegum um flugvelli Isavia um 28,2% samanborið við árið á undan. Á sama tíma fjölgaði innanlandsfarþegum í heild um sem nemur 3% frá því sem var 2016.
Á Keflavíkurflugvelli voru brottfarar- og komufarþegar rúmar 5,7 milljónir en áningar- og skiptifarþegar rúmar 3 milljónir. Það eru samanlagt rúmar 8,7 milljónir ferðalanga. Það eru 28,4% fleiri en 2016.
Aukning í vöru- og póstflutningum
Umfang vöru- og póstflutninga innanlands um íslenska áætlunarflugvelli drógust saman um 23,5% árið 2017 frá því sem var árið á undan. Á sama tíma jókst flutningur á vörum og pósti milli landa um íslenska áætlunarflugvelli um 12,9%. Mest var aukningin á flutningum um Keflavíkurflugvöll.
Umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið
Alls fóru 185.296 flugvélar um íslenska flugstjórnarsvæðið árið 2017. Það eru 11,9% fleiri en árið 2016. Helstu brottfarar- og áfangastaðir flugvéla í íslenska úthafsflugstjórnarsvæðinu í fyrra voru Lundúnir til Keflavíkur eða 3.187 ferðir og síðan Keflavík til Lundúna með 3.171 ferð.
Þau tíu flugfélög sem fóru oftast um íslenska svæðið eru Icelandir, Wow Air, United Airlines, SAS, Delta, Emirates, Lufthansa, British Airways, Air Canada og Qatar.