Nýjast á Local Suðurnes

Umboðsmaður Alþingis með Paddys-mál til skoðunar

Umboðsmaður Alþingis hefur, samkvæmt heimildum Suðurnes.net, til skoðunar mál er kom upp í lok árs 2014 og varðar sölu á skemmtistaðnum Paddy´s við Hafnargötu. Núverandi rekstraraðilar skemmtistaðarins tóku við rekstrinum í febrúar árið 2015, eftir að hafa gert leigusamning við Reykjanesbæ, en fyrrverandi eigandi staðarins ber bæjarfulltrúa og þáverandi bæjarstjóra þungum sökum vegna málsins.

Fyrrum eigandi skemmtistaðarins, Ármann Ólafur Helgason, segir fyrirtæki sín, eignarhaldsfélagið Ambi ehf. og Paddys ehf. hafa farið í þrot vegna aðgerða Reykjanesbæjar, auk þess sem hann telur Reykjanesbæ hafa verið tregan til að afhenda lögfræðingi sínum gögn sem varða málið. Málinu mun því hafa verið skotið til Umboðsmanns Alþingis sem hefur málið til skoðunar.

Forsaga málsins er sú að núverandi rekstraraðilar þessa vinsælasta skemmtistaðar Suðurnesja hófu rekstur í húsnæðinu í febrúar árið 2015, eftir að hafa gengið frá leigusamningi á húsnæðinu við eiganda þess, Reykjanesbæ. Fyrrverandi eigandi staðarins telur sig hins vegar hafa verið svikinn af þáverandi stjórnendum Reykjanesbæjar varðandi málefni staðarins og í kjölfarið hafi fyrirtæki hans orðið gjaldþrota. Þá segir hann farir sínar heldur ekki sléttar í samskiptum sínum við staðgengil bæjarstjóra á þeim tíma.

Töluverð umræða var á samfélagsmiðlum um að Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar, hafi haft trúnaðargögn varðandi málið undir höndum, en hann neitaði því og sagði á sínum tíma að farið hafi verið eftir samþykktum meirihluta bæjarráðs og bæjarstjórnar í einu og öllu þegar þær lágu fyrir.

Heimildir Suðurnes.net herma að töluverður tími muni hafa liðið frá því að málinu var skotið til Umboðsmanns þar til Reykjanesbær svaraði erindinu, en það fékkst þó ekki staðfest þar sem Umboðsmaður Alþingis gat ekki svarað fyrirspurnum Suðurnes.net vegna málsins – í stöðluðu svari Umboðsmanns kom fram að embættið nálgist mál með þeim hætti að fólk og fyrirtæki geti almennt leitað til embættisins án þess að aðrir séu upplýstir um það.

Hvorki náðist í Ármann Ólaf, fyrrverandi eiganda Paddy´s né Guðbrand Einarsson, bæjarfulltrúa við vinnslu fréttarinnar.