Nýjast á Local Suðurnes

Um 2000 manns hafa skrifað undir áskorun vegna tilraunaborana í Eldvörpum

Grindavíkurbær veitti HS Orku framkvæmdaleyfi til rannsóknarborana í Eldvörpum seint á síðasta ári. Framkvæmdin hefur farið í gegnum feril mats á umhverfisáhrifum og deiliskipulag. Skipulagið sem gerir ráð fyrir fimm borplönum hefur verið staðfest.

Öll undirbúningsvinna rannsóknaborana hefur miðað að því að uppfylla skilmála hverfisverndar Grindavíkurbæjar sem meðal annars felur í sér að halda skuli mannvirkjagerð í lágmarki og að nota skuli núverandi vegslóða við framkvæmdina. þá er óheimilt er með öllu að hrófla við gígunum sjálfum.

Fljólega eftir að Grindavíkurbær hafði gefið út framkvæmdaleyfi til HS Orku var sett í gang alþjóðleg undirskrifasöfnun á vefsvæði Avaaz þar sem skorað er á HS Orku og Grindavíkurbæ að hætta við áform um rannsóknarboranir og jarðhitavinnslu í Eldvörpum á Reykjanesi. Aðstandendur undirskriftarsöfnunarinnar stefna að því að ná 10.000 undirskriftum áður en áskorunin verður afhent Grindavíkurbæ og HS Orku á næstu vikum, en um 2000 manns hafa nú þegar skrifað undir.

Fyrirhuguð stækkun á núverandi borplani er gefin til kynna með brotinni  svartri línu. Nærliggjandi gígar eru afmarkaðir með rauðum lit en á myndinni má einnig sjá helli sem telst til fornleifa og fundarstað sjaldgæfra háplöntutegunda. Afmörkun borplansins tekur mið af nærumhverfinu.

Fyrirhuguð stækkun á núverandi borplani er gefin til kynna með brotinni svartri línu. Nærliggjandi gígar eru afmarkaðir með rauðum lit en á myndinni má einnig sjá helli sem telst til fornleifa og fundarstað sjaldgæfra háplöntutegunda. Afmörkun borplansins tekur mið af nærumhverfinu.

Náttúruljósmyndarinn Ellert Grétarsson hefur látið sig málið varða og bendir meðal annars á í grein sem birt var á vefmiðlinum Stundinni að bæði HS Orka og Grindavíkurbær séu stofnaðilar að Reykjanes Geopark sem Eldvörp séu hluti af.

“Reykjanes Geopark var stofnaður af Grindavíkurbæ og HS Orku. Er jarðvanginum ætlað að hafa „fræðslugildi vegna fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja“ svo vitnað sé beint í talsmann jarðvangsins. Bæjarstjórinn í Grindavík talar einnig í nýlegu viðtali um „uppbyggingu ferðaþjónustu og fræðslu sem byggir á einstökum jarðminjum.” Segir meðal annars í grein Ellerts.

Á vef undirskriftasöfnunarinnar segir að Eldvörp séu einstakar jarðminjar á heimsvísu og að hvergi í heiminum megi upplifa jarðvirkni milli tveggja jarðskorpufleka líkt og þar. Þá hafi svæðið að auki að geyma söguleg verðmæti.

Í tilkynningu frá Grindavíkurbæ vegna veitingu framkvæmdaleyfisins segir að rannsóknaboranirnar komi ekki til með hafa áhrif á gígaröð Eldvarpa og að göngustígar og slóðar verði áfram opnar þeim ferðamönnum sem vilja sækja svæðið heim. Þá segir einnig í tilkynningunni að áhrif af hávaða frá framkvæmdum og vegna blásturs borholna kunni að valda áhrifum á upplifun ferðamanna og útivistarfólks sem eigi leið um svæðið en þau áhrif eru tímabundin.

HS Orka Áætlar að rannsóknarboranir hefjist um mitt ár 2016.