Nýjast á Local Suðurnes

Um 200 leikskólabörn og starfsfólk í sóttkví fram að jólum

Um 200 leikskólabörn og starfsfólk leikskólanna Holts í Reykjanesbæ og Gefnarborgar í Garði verða í sóttkví fram á aðfangadag eftir að kórónuveirusmit greindist á leikskólunum. Starfsfólk leikskólanna hefur þegar farið í fyrri skimun og verður sú síðari framkvæmd á aðfangadag. Börn á leikskólunum hafa verið boðuð í skimun eftir helgi. Báðir leikskólarnir eru lokaðir vegna þessa.

Í dag eru 26 einstaklingar í einangrun á Suðurnesjum og tæplega 250 einstaklingar í sóttkví samkvæmt tölum á vef landlæknis og Almannavarna, covid.is.

Þá beinir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þeim tilmælum til almennings að sýna varkárni.

Nú, sem fyrr, ríður á að sinna persónulegum sóttvörnum og ef vart verður við einkenni skal bóka sýnatöku á Heilsuveru (heilsuvera.is) eða hafa samband við heilsugæslu eða vaktsímann 1700, segir á Facebook-síðu stofnunarinnar.

Mikilvægt er að fólk fari að öllu með gát ef grunur er um smit. Ekki fara til vinnu eða þar sem líkur eru á að komast í nálægð við annað fólk fyrr en niðurstöður sýnatöku liggja fyrir.