Nýjast á Local Suðurnes

Um 150 starfsmenn frá Póllandi verða ráðnir í sumarafleysingar hjá IGS

Ekki er til nægt vinnuafl á Íslandi til að manna allar stöður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á mesta annatímanum næsta sumar og fram á haust, þetta segir Gunnar Olsen, framkvæmdastjóri hjá IGS í viðtali við Fréttablaðið. Þar kemur einnig fram að fyrirtækið hafi auglýst eftir starfsfólki erlendis og muni að öllum líkindum ráða um 150 manns frá Póllandi í hlaðdeild, flugeldhús, ræstingar og farþegaþjónustu.

„Við erum með fólk frá Póllandi inni hjá okkur og erum að nýta þau ágætu sambönd sem við höfum í gegnum það ágæta fólk hjá okkur,“ segir Gunnar við Fréttablaðið.

Hann býst við að ráðninganefnd á vegum fyrirtækisins fari héðan til Póllands um mánaðamótin janúar og febrúar og gangi frá ráðningum í allar deildir.

Bakgrunnsskoðun hluti af vandamálinu

Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og Sjómannafélags Keflavíkur segir bakgrunnskoðanir íslenskra starfsmanna vera hluta af vandamálinu:

„Þó ég sé með í félaginu hjá mér 136 án atvinnu þá uppfylla þeir ekki þær kröfur að geta unnið hjá IGS. Fólk þarf að fara í bakgrunnsskoðun, vera með bílpróf og fleira.” Segir Kristján í viðtali við Fréttablaðið.