Nýjast á Local Suðurnes

Tvöfalt meiri líkur á að sjá norðurljós á þessum árstíma – Sjáðu hvers vegna!

Myndin tengist fréttinni ekki beint - Photo © Haraldur H. Hjalmarsson 2013.

Þeir sem hafa gaman að því að kíkja á norðurljósin ættu að vera við öllu búnir á þessum tíma árs, en um þessar mundir eru tvöfalt meiri líkur á að norðurljósin sjáist en til dæmis í desember eða janúar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umræðum um þessi flottu fyrirbæri í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar.

Hér fyrir neðan má lesa áhugavert innlegg Sævars Helga Bragasonar, sem heldur úti vefsíðunni Stjörnufræði.is, en þar má finna ýmsan fróðleik um norðurljósin:

Á rólegum kvöldum er að meðaltali best að vera úti milli 22:30 og 00:30 eða svo. Þá höllum við inn að segulhala segulhvolfs Jarðar þar sem segulsviðslínurnar smella saman og hraða rafeindum sólvindsins inn að pólunum. Þetta er nálægt segulmiðnætti hjá okkur. Þegar útlitið er rólegt (sem á Kp kvarðanum er milli 0-3 ) eru allar líkur á að þið sjáið eitthvað á þeim tíma.

Svo geta komið hviður þar sem í örfáar mínútur sjást fín norðurljós sem síðan fjara út. Þá getur Kp gildið í þessar fáeinu mínútur farið hærra en spár gera ráð fyrir. En síðan þegar meðaltal er tekið yfir 3 tíma (Kp gildið er meðaltal yfir þrjá tíma) getur meðaltalið verið miklu lægra en það sem gerðist í stutta stund.

Loks er það árstíminn. Að meðaltali eru tvöfalt meiri líkur á að sjá norðurljós á þessum árstíma en t.d. í desember og janúar. Ástæðan er sú að í kringum jafndægur er halli segulsviðs Jarðar miðað við sólina heppilegri svo rafeindir sólvindsins eiga greiðari leið inn að pólsvæðunum. Það er alla vega talin líklegasta skýringin. Um þetta leyti árs sjást því norðurljós við minnstu sólvindhviður.

Ég færi því hiklaust út nánast hvert einasta bjarta kvöld um þetta leyti árs nema allt sé gjörsamlega dautt. Og þá er spurningin bara hversu björt norðurljósin þurfa að vera til að ferðamenn verði ánægðir með það sem þeir sjá.