Nýjast á Local Suðurnes

Þróa app sem auðveldar sveitarfélögum að koma skilaboðum áleiðis til íbúa

Reykjanesbær hefur hafið samstarf við fjögur önnur sveitarfélög um þróun og eflingu rafrænnar þjónustu. Viðræður eru þegar hafnar um fyrsta samstarfsverkefnið, íbúaapp sem myndi stuðla að aukinni þjónustu við íbúa og auðvelda sveitarfélögunum að koma skilaboðum áleiðs til íbúa svæðisins.

Möguleikar íbúaapps eru margir og yrðu þeir innleiddir í fösum, segir í lýsingu á verkefninu, þannig yrði áætlað að í upphafi myndi appið innihalda ábendingagátt, tilkynningar sem koma þarf til íbúa og yrði appið þannig upp byggt að hægt væri að einangra þær niður á hverfi. Einnig yrði hægt að selja strætó- og sundkort, skoða mælingar á loftgæðum, óska eftir aðstoð ferðaþjónustu fatlaðra og gera stuttar kannanir.

Næstu skref í verkefninu yrðu að klára þarfagreiningu, verkefnaáætlun og kostnaðarskiptingu sveitarfélaganna auk annarra útistandandi þátta. Starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafræna þróun mun hafa yfirumsjón með samstarfinu og leiða það áfram.