Nýjast á Local Suðurnes

Þjónustufulltrúi gafst upp á röflinu í FöstudagsÁrna

Föstudagspistillinn var í fríi í síðustu viku og kemur því víða við síðustu tvær vikurnar, fjölbreyttur, beittur og skemmtilegur.

Heilbrigð samkeppni í gangi hjá Hótel keflavík – Neytendastofa hefur sektað hótelið þar sem starfsmaður þess hefur dundað sér við það að drulla yfir Flughótelið sem er helsti samkeppnisaðilinn í bænum. Það er greinilega ekki nóg að skarta 5 stjörnum fyrir Hótel keflavík. Ég skil ekki svona vinnubrögð, nú eru bæði hótelin rótgróin fyrirtæki, en núna veit ég allavega fyrir víst hvort þeirra ég myndi velja eða mæla með, þessi hegðun er vægast sagt barnaleg – hvað næst? Kasta eggjum í Flughótel?

Árni Árna

Árni Árna

Þrátt fyrir háan aldur nota ég heimabanka og get vart sagt að ég hafi farið í banka mjög lengi. Ég kalla það að fara með reikningana um hver mánaðarmót í banka og standa í röð hálfgerð bréfdúfuviðskipti – gamalt fyrirbæri sem notað var á öldum áður. En ég átti erindi í banka á dögunum til að fjárfesta í gjafabréfi. Ég skellti mér í Arion banka þar sem Landsbankinn er ekki með útibú í Grafarvogi. Eftir langa bið var númerið mitt kallað upp. Gjaldkerinn gerði mér grein fyrir því að það kostar tæpar 600 krónur að fá svona kort. Ég sýndi með svipbrigðum og orðum að þetta væri fulldýrt en reif upp debet kortið mitt til að greiða óskupin. Þá sagði gjaldkerinn að þar sem ég er með kort frá Landsbankanum þá kostar greiðslan 480 krónur ! Bara fyrir að fá að greiða fyrir þessa þjónustu en er frítt fyrir viðskiptavini Arion. Þá missti ég mig aðeins enda eru bankarnir samstíga í að níðast á okkur með yfir 250 færslu- og þjónustugjöldum. Ég var ekki par hrifinn þegar það lá fyrir að ég hefði getað á þessum 40 mínútum sem ég beið í röð, farið í hraðbankann tekið út pening og greitt fyrir það 155 krónur. Gjaldkerinn gafst upp á mér og sleppti mér við þetta þjónustugjald. Ég spyr hvort það sé lagastöð fyrir öllum þessum gjöldum sem bankar rukka fyrir? Er þetta ekki eitthvað sem er vert fyrir þingmenn að skoða? Ég hvet Alþingi til að skoða vinnubrögð bankanna.

Ólöf Nordal. Innanríkisráðherra hefur ákveðið að leggja niður mannanafnanefnd – þvílíkur léttir. Hvaða bull er það að ríkið sé með fingurna í því hvað við skírum börnin okkar? Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta, örfáir benda á að son og dóttir sé í hættu. Að við tökum upp hálfgerð ættarnöfn í staðin. Þetta sagði Guðrún KVARAN sem ber ættarnafn en er ekki kennd við föður sinn – er eðlilegt að hún hafi áhyggjur? Hún getur þá lagt sitt að mörkum og hent út ættarnafninu.

Ég ætla, áður en þið haldið áfram að lesa, að biðjast afsökunar á kjaftinum á mér – en mikið er ég orðinn þreyttur að sjá fólk missa sig í commentakerfum yfir fréttum um ráðherrabíla. Flotinn var orðinn þreyttur í mörgum tilfellum, með bilanatíðni og viðeigandi kostnaði og þá þarf að endurnýja. Nú fékk menntamálaráðuneytið nýjan bíl. Sá gamli var átta ára gamall. Allt gott og blessað með það, en grjótmulningsvélarnar á commentakerfunum kallandi Illuga Spillungi og afhverju valdi hann svona bíl og framvegis. Þessi umræða á sér stað í hvert skipti sem einhver ráðherrabíll er endurnýjaður og þá er drullað yfir ráðherrana. Það vita það allir sem eru með greindarvísitölu hærri en skítahoppari að ákvarðanir um endurnýjun og hvernig bílar verða fyrir valinu er ekki ráðherrans að áveða. Það er sér stofnun sem sér um eigur og rekstur ríkiseigna sem gerir það. Reikningar út kostnað, fær tilboð og járfestir. Þetta er svo einfalt að sofandi tveggja ára barn skilur þetta – en ekki skítahoppararnir sem hafa ekkert annað að gera en skíta yfir allt og ekkert líka.

Besti brandari vikunnar er að Steingrímur Joð og Björn Valur hafa séð til þess að verma tvö af þremur toppsætum á framboðslista VG fyrir norðan. Þessir tveir menn eiga ekkert erindi á þing. Steingrímur er orðinn lúinn og þreyttur, enda hefur varla nokkur sála orðið vör við hann á þessu kjörtímabili. Björn Valur kann bara að drulla yfir allt og alla með ljótleikann að leiðarljósi og skilar engu til samfélagsins. Þeir keyrðu klíku-uppstillingu í gegn á þrjátíu manna félagsfundi – það eru fleiri á Lionsfundum í sveitinni en á fundum VG.

Okkar ástkæra landslið í fótbolta settu allt á annan endan í vikunni með mesta afreki í íþróttasögu landsins – eða svo segja spekingarnir. Strákarnir eru gjörsamlega frábærir og að sjálfsögðu þurfti Suðurnesjamann til að innsigla sigurinn og þátttöku liðsins í 16 liða úrslitum – enda var skotið upp flugeldum í Reykjanesbæ að loknum leiknum.

Nú megum við í borginni þess vegna brenna inni, Dagur þarf að spara. Slökkviliðið í borginni er undur niðurskurðarhníf borgarstjóra. Á sama tíma og íbúafjöldin í landinu er að margfaldast með fjölgun ferðamanna veifar hann hnífnum og fækkar á vöktum. En er nýverið búinn að opna 80 milljón króna brú yfir lækjasprænu í Elliðaárdalnum, hent 170 milljónum í hjólreiðastíg á Grensásvegi og 100 milljónir í að endurinnrétta Hlemm. Forgangsröðun dauðans í orðsins fyllstu merkingu – slökkviliðið sinnir borgurum í lífsháska, en hey, við getum samt hjólað og dúllað okkur á matarmarkaði á Hlemmi – munið bara að hjóla niður á Hlemm, það eru engin bílastæði í boði.

Eitt skil ég ekki, ef ég er með fasta útborgun á mánuði allt árið um kring, hvernig get ég skuldað fyrirtækinu fyrir ofgreidd laun ? Ég velti þessu fyrir mér þar sem núna var Tryggingarstofnun að senda glaðing á fjölda eldri borgara og bótaþega. Margir fá það glaðning að þeir skuldi – eldri borgarar fá heilar 203.000 þúsund þegar búið er að draga af þeim skatta. Samt getur Tryggingastofnun ofgreitt þeim – ég hef bara ekki skilning á þessu máli. Fyrsta lagi hef ég ekki skilning á þeirri niðurlægingu að fólk sem hefur unnið alla sína ævi, greitt skatta og skyldur til samfélagsins fái ljótan skitinn 200 þúsund kall í eftirlaun. Þetta er svo til skammar að þetta er svartur blettur á íslensku samfélagi og sama segi ég um það að rukka þá fyrir ofgreiðslur. Er þetta þakklætið fyrir vel unnin störf í þágu lands og þjóðar? Alþingismenn fá stóra skítaköku frá mér hvað þetta varðar og vonandi sjá þeir sóma sinn í að bæta kjörin hjá þessum stóra þjóðfélagshópi. Ég hitti eitt sinn eldri borgara sem sagði mér að hann ætti 40 þúsund alögu á mánuði til að lifa af, kaupa í matinn, borga lyfin sín og framvegis. Þetta er ekki líðandi í ríku samélagi eins Íslandi.

Fyrir ykkur sem viljið lyfta ykkur upp um helgina þá stendur yfir Sólseturshátíð í Garðinum – út á Garðskaga þar sem fallegustu sólsetur landsins eiga sér stað. Þar er hátíðardagskrá í fullum gangi og aðaldagurinn er á morgun, laugardag. Þess má geta í leiðinni að kynnir hátíðarinnar er einstaklega skemmtilegur og ætlar að glenna sig eins og hægt er á sviðinu fram eftir kvöldi. Sjáumst á Garðskaga.

Góða helgi