Nýjast á Local Suðurnes

Þetta eru bestu þynnkubitarnir á Suðurnesjum – “Það verður að vera nógu andskoti djúsí!”

Dagurinn eftir gott djamm getur verið frekar erfiður fyrir suma og góður þynnkubani er gulls í gildi. Við á Localnum erum alltaf klárir í að hjálpa fólki og leituðum því til fésbókarvina okkar eftir góðum ráðum í þessum efnum. Flestir voru sammála um að hollusta skipti akkúrat engu máli þegar kæmi að fyrstu máltíðini eftir góða ferð á pöbbann, eða eins og enn góður vinur okkar orðaði það – “Það verður bara að vera nógu andskoti djúsí!”

Besti þynnkubitinn:

Pulsuvagninn hjá Villa og Ingu fékk lang flest atkvæðin í þessari óformelgu könnun, en vel yfir helmingur þeirra sem tóku þátt sögðu ferð á “Villaborgara” algjörlega vera málið eftir að hafa drukkið of marga kalda.

“Eftir gott kvöld úti á lífinu verður maturinn bara að vera nógu andskoti djúsí! Og Villaborgari er bara algjörlega out of this World”

Númer 2: 

Olsen Olsen er að margra mati flottur í þynnkunni – “Beikonbátur á Olsen Olsen reddar alltaf heilsunni daginn eftir. Lífsnauðsynlegt.”

Þriðji besti bitinn:

Nokkur fjöldi virðist leggja leið sína á Ungó við Hafnargötu eftir að hafa hellt í sig áfengi í töluverðu magni daginn áður, en á meðal þess sem sagt var um staðinn var að það væri flott að “…hjóla í ameríska borgarann á Úngó þegar timburmennirnir eru að bera mann ofurliði.”

Fleiri staðir voru nefndir til sögunnar í könnuninni sem var eins óformleg og hugsast getur, þar á meðal Bitinn, Domino´s og Subway, en margir sögðust kíkja á þann síðastnefnda eftir djamm og taka þynnkubitann með sér heim sem forvörn.