sudurnes.net
Telur að reisa þurfi heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík og Suðurnesjabæ - Local Sudurnes
Forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja, Markús Ingólfur Eiríksson, telur að færa þurfi þjónustu heilsugæslunnar nær íbúum en nú er og til að ná því takmarki telur Markús að reisa þurfi heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík og Suðurnesjabæ. Þá telur Markús að bæta þurfi þjónustuna í Keflavík, en í kynningu sem forstjórinn flutti á aðalfundi Öldungaráðs Suðurnesja á dögunum kom fram að sú vinna sé þegar hafin. Í kynningunni kemur fram að helsta vandamál heilsugæslunnar sé skortur á húsnæði en að ýmislegt sé hægt að gera til að flýta fyrir afgreiðsu. Þannig hefur verið sett upp teymisvinna á heilsugæslunni málum hagað þannig að hægt verði að leys fleiri erindi í gegnum síma, því fylgi mikið hagræði sem gerir það að verkum að brýn erindi komist fyrr að. Þá segir forstjórinn að heilsugæslan þurfi að vaxa í takt við fjölgun íbúa og því þyrfti að reisa heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík og Suðurnesjabæ. Þá þarf að bæta þjónustu við íbúa í Vogum, en þar er hjúkrunarfræðingur á vakt einn dag í viku eins og staðan er í dag. Í kynningunni sagði Markús einnig að fyrir gríðarlega fólksfjölgun hafi Heilbrigðisstofnunin staðið á veikum stoðum, en tók fram að fáliðað starfsfólk hafi nánast unnið kraftaverk við að halda uppi góðri þjónustu. [...]