Nýjast á Local Suðurnes

Tekinn í tollinum með 21.237 verkjatöflur – 17 létust á síðasta ári vegna misnotkunar verkjalyfja

Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar lögðu nýverið hald á tugi þúsunda sterkra verkjataflna sem flugfarþegi hugðist smygla inn í landið. Farþeginn sem var að koma frá Spáni hafði komið töflunum, samtals 21.237 stykkjum, fyrir í kössum í ferðatöskum.  Um var að ræða 22 tegundir sterkra verkjalyfja.

Í tilkynningu frá Tollstjóra segir að Lögreglan á Suðurnesjum hafi haft rannsókn málsins með höndum og leikur grunur á að lyfin hafi verið ætluð til sölu hér. Viðkomandi einstaklingur hefur komið við sögu lögreglu áður.

Tollstjóri vill af þessu tilefni benda á upplýsingar frá embætti Landlæknis þar sem fram hefur komið að aukning hefur orðið á dauðsföllum vegna misnotkunar sterkra verkjalyfja undanfarin ár. Samkvæmt dánarmeinaskrá létust 13 af ofnotkun slíkra lyfja árið 2014, 14 manns árið 2015 og 17 á síðasta ári. Sterk verkjalyf eru algengasta orsök lyfjatengdra dauðsfalla, þar með talið ólöglegra fíkniefna, samkvæmt upplýsingum frá Landlækni.

 

Þá minnir Tollstjóri á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Einnig má koma ábendingum  um smygl inn á símsvara 5528030 hjá embætti Tollstjóra.