Nýjast á Local Suðurnes

Tekið hefur verið á fjármálastjórn hjá lögreglunni á Suðurnesjum

Samstillt átak starfsfólks embættisins á stóran hlut að máli í bættri afkomu

Embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum hefur verið rekið með halla allt frá árinu 2001. Í lok árs 2008 var hann orðinn verulegur eða samtals 186,1 m.kr. Markmið embættisins var að greiða jafnt og þétt niður hallann og á sama tíma að leita til ráðuneytisins um að koma á móts við embættið með því að lækka eða jafnvel að fella niður hallann. Árin 2009 til og með árinu 2014 hefur rekstur embættisins ávallt verið innan fjárheimilda og verið greiddar niður rúmar 50 m.kr..

Á lokafjárlögum ársins 2012 var framkvæmd sérstök aflétting rekstrarhalla frá fyrri árum og var embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum eitt þeirra sem uppfylltu neðangreind fjögur skilyrði:

  • Uppsafnaður halli í árslok 2009 var yfir 100 m.kr.
  • Tekið hefur verið á fjármálastjórn þannig að ekki hafi bætt í hallann
  • Halli í árslok 2012 er umfram 4% af fjárlagaveltu
  • Stofnunin hefur ekki fengið framlag vegna hallareksturs í fjáraukalögum á tímabilinu

Aflétt var 75% af þeim halla sem var í lok ársins 2012, 141 m.kr. sem er 105,7 m.kr.. Halli embættisins í lok árs 2012 var þá 35,3 m.kr. og er nú í lok árs 2014 kominn niður í 25,6 m.kr.. Þar með er embættið komið undir 4% halla en það er það hlutfall sem heimilt er að flytja á milli ára.

Þessi niðurstaða kemur ekki af sjálfri sér, segir í ársskýrslu Lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir árið 2014, sem gefin var út á dögunum. Samstillt átak starfsfólks embættisins í þessum efnum á hér stóran hlut að máli.

Jafnframt er ljóst að starfsfólk innanríkisráðuneytisins hefur lagt þessu máli lið í þágu embættisins. Hvoru tveggja ber að þakka. Markmiðið er áfram að halda embættinu innan fjárheimilda og ná hallanum niður, segir í skýrslunni.