Nýjast á Local Suðurnes

Svona mun flugstöðin líta út eftir breytingar – Myndband

Miklar framkvæmdir við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa ekki farið framhjá þeim sem eiga leið þar hjá, en nú er unnið að stækkun komusals sem og uppsetningu á nýjum og betri öryggisleitarlínum sem þó hefur tekið lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna tafa frá framleiðanda. Í myndbandi sem framleitt er af Isavia og fylgir fréttinni má sjá hvernig FLE kemur til með að líta út eftir breytingarnar.

Mikið álag vegna öryggisleitar

Þessa dagana fer mikill fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og hafa á álagstímum skapast raðir við öryggisleit brottfararfarþega. Hápunktur ferðasumarsins er nú í júlí og ágúst og búast má við því að stærstu dagana geti myndast biðraðir í flugstöðinni. Helstu álagstímar eru á morgnana, síðdegis og um miðnætti, stærstu dagar vikunnar eru fimmtudagar, föstudagar og sunnudagar. Þeir sem ferðast á þessum helstu álagstímum eru hvattir til þess að mæta tímanlega en innritun hefst um það bil 2,5-3 tímum fyrir brottför á þessum tímum.

Nokkrir samverkandi þættir valda þessu mikla álagi:

  • Mikill fjöldi ferðamanna fer um flugstöðina á sama tíma
  • Uppsetning á nýjum og betri öryggisleitarlínum hefur tekið lengri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna tafa frá framleiðanda
  • Innleiðingu á breyttu verklagi, sem ekki var hægt að fresta, hefur fylgt aukin þjálfun starfsfólks

Starfsfólk Isavia vinnur nú hörðum höndum að því að koma nýjum öryggisleitarlínum í notkun sem fyrst, tryggja aukna mönnun í öryggisleit, klára þjálfun og dreifa álaginu eins og því verður við komið. Áhrifa af þessari vinnu er strax farið að gæta, en búast má við að það taki nokkurn tíma að ná jafnvægi á ástandið.

Á meðan unnið er að því að auka skilvirkni í öryggisleitinni sem orsakast af einhverju leiti vegna þess að Keflavíkurflugvöllur fékk falleinkunn í könnun EFTA og Samgöngustofu þegar fjöldi gervisprengja eftirlitsmanna komst í gegnum öryggisleit.  eru farþegar sem eiga bókað flug á álagstímum hvattir til þess að mæta tímanlega, allt að 2,5-3 tímum fyrir flug.