Nýjast á Local Suðurnes

Súpufundur ferðaþjóna í Reykjanesbæ

Reykjanesbær mun bjóða ferðaþjónum, starfsfólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu í Reykjanesbæ á súpufund í Hljómahöll fimmtudaginn 14. janúar kl. 11:00 til 13:00. Fundurinn er þátttakendum að kostnaðarlausu en tilkynna þarf þátttöku.

Mörg fróðleg og góð erindi verða á fundinum sem gestir munu hlýða á meðan þeir gæða sér á dýrindis kjötsúpu í boði Víkingaheima.

Arnar Hafsteinsson frá Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs mun segja frá ævintýraleiðsögunámi sem kennt er við skólann, Eggert S. Jónsson frá Reykjanes jarðvangi mun ræða hvernig nálægð við Geopark getur haft raunveruleg áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir verkefnastjóri á sviði ferðamála hjá Reykjanesbæ fer yfir samtaka sýn á ferðaþjónustu í Reykjanesbæ.

Mannamót markaðsstofa landshlutanna verða kynnt, en það verður haldið í flugskýli flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli 21. janúar nk. Tilgangur Mannamóts er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynna þarf þátttöku í netfangið hrafnhildur.y.hafsteinsdottir@reykjanesbaer.is