Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjalína II myndi þvera flugbrautir í Hvassahrauni

Landsnet er í startholunum með framkvæmdir á Suðurnesjum, en raflínur liggja þvert yfir mögulegt flugvallarstæði í Hvassahrauni, þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að tillögur í skýrslu Rögnunefndar um mögulegt flugvallarstæði í Hvassahrauni hafi á þessu stigi engu breytt um Suðurnesjalínu 2.

Héraðsdómur staðfesti heimild Landsnets til eignarnáms á jörðinni í gær, svo Landsneti er fátt að vanbúnaði með að hefja lagningu línunnar, eins og greint var frá í gær.

Allir búnir að gefa grænt ljós á framkvæmdir nema Hafnarfjörður

„Það var fyrirhugað að hefja framkvæmdir núna í sumar. Við erum bara að bíða eftir framkvæmdaleyfi frá Hafnarfirði,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets. Hann segir öll önnur sveitarfélög vera búin að gefa út framkvæmdaleyfi, sem taki gjarnan nokkra daga að gefa út þegar öll gögn hafi verið lögð fram. Hafnarfjarðarbær hafi hins vegar þegar verið rúmt ár að gefa út leyfið.