Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjalið vilja klára Íslandsmótið

Níu félög í Lengjudeildinni, 2. deild og 3. deild karla, þar á meðal Suðurnesjaliðin Njarðvík, Víðir og Þróttur Vogum, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á KSÍ að halda Íslandsmótinu í knattspyrnu áfram til 1. desember.

Ekkert hefur verið spilað síðan 7. október og óvíssa er um framhald mótsins vegna kórónuveirufaraldursins.

Yfirlýsing liðanna níu í heild sinni:

Eftirfarandi félög hvetja KSÍ að halda Íslandsmótum í knattspyrnu áfram til 1. desember n.k. Skoðun okkar er að það á að klára öll mót svo að allir njóti sanngjarnrar lokaniðurstöðu.

Hreyfingin mun bera mikinn skaða af því að hlusta eingöngu á raddir félaga sem halda uppi áróðri í fjölmiðlum um bestu niðurstöðu sinna félaga í öllum deildum Íslandsmótsins.

Í reglugerð KSÍ um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru (Covid-19) segir í gr. 4.4. Öllum leikjum í Íslandsmótum skal vera lokið eigi síður en 1. desember 2020 og verður einstökum leikjum eða mótum meistaraflokka ekki frestað aftur fyrir þann tíma.

Félög sem senda þessa yfirlýsingu eru:
Álftanes
Fram
Haukar
Leiknir F
Magni
Njarðvík
Víðir
Vængir Júpíters
Þróttur V