Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjahjón stjórnuðu saman Boeing 757 til Toronto

Þau Margrét Elín Arnardóttir og Tómas Beck, flugmaður og flugstjóri, flugu nýlega einni af Boeing 757 flugvélum Icelandair til Toronto í Kanada. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þau eru hjón.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá hjónin á Keflavíkurflugvelli 28. ágúst en þá voru þau á leiðinni út í vél að undirbúa flugið til Toronto.

„Það er alveg frábært að fá að vinna svona náið saman, við lítum bæði á það sem forréttindi,“ segir Margrét Elín í samtali við Nútímann. Hún segir þau vissulega ekki fljúga oft saman, enda margir flugmenn við störf hjá fyrirtækinu.

Þau Margrét og Tómas eru búsett á Suðurnesjum, en auk þess að vera flugstjóri hjá Icelandair starfar Tómas, sem er þrautreyndur flugmaður, við þjálfun atvinnuflugmannsnemenda hjá Flugakademíu Keilis og kenndi Tómas eiginkonu sinni til að mynda verklega hluta blindflugsins og atvinnuflugs.