sudurnes.net
Suðurnesin fjársvelt - Ályktanir hafa ekki hlotið hljómgrunn hjá ráðamönnum - Local Sudurnes
Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum hefur margoft sent frá sér sameiginlegar ályktanir til ráðamanna þjóðarinnar um vanda sem snýr að fjárveitingum frá ríki til svæðisins. Ályktanirnar virðast þó ekki hafa hlotið hljómgrunn og tóku þingmenn Suðurkjördæmis, sem kváðu sér hljóðs á opnum fundi sem Reykjanesbær hélt um málið, undir þau sjónarmið. Á fundinum var kynnt úttekt sem Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson hjá ráðgjafafyrirtækinu Aton vann fyrir Reykjanesbæ, en í úttektinni, sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan, kemur meðal annars fram að íbúafjölgun í Reykjanesbæ hafi verið fordæmalaus á undanförnum árum, allt upp í tæp 8% á ári, sem er langt umfram landsmeðaltal. Sömu sögu er að segja um fjölgun ferðamanna sem bæði kallar á aukið álag á innviðina í nágrenni flugstöðvar en ekki síður á aukinn mannafla vegna mikils uppgangs í flugi og flugtengdri starfsemi og svo virðist sem gleymst hafi að taka mið af mikilli fólksfjölgun við útdeilingu fjármuna til verkefna ríkisins á svæðinu. Bæjarstjórn Reykjanesbær lét vinna úttektina enda hafði bæjarfulltrúa lengi grunað að pottur væri brotinn í fjárframlagi ríkisins til verkefna á Suðurnesjum, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ. Mikill fjöldi fólks var á fundinum og margir tóku til máls. Hér má lesa niðurstöður Dr. Hugins Freys Þorsteinssonar [...]