Nýjast á Local Suðurnes

Stóra strætómálið aftur í bæjarráð

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að taka breytingar á akstri strætó aftur til umræðu í bæjarráði. Mikil óánægja hefur verið með breytingarnar, sérstaklega á meðal íbúa í innra hverfi Njarðvíkur og nemenda við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Helstu breytingar eru þær að akstur byrjar fyrr og vagnar aka lengur virka daga. Þá verður ferðum á laugardögum fjölgað og reynsla gerð á sunnudagsakstri innanbæjarstrætó. Þá eru gerða breytingar á leiðakerfinu, sérstaklega í Dalshverfi.

Almenn ánægja virðist vera með lengingu á aksturstíma, en íbúar í Dalshverfi í Innri-Njarðvík eru allt annað en ánægðir með niðurstöður sérfræðinga varðandi nýtt leiðakerfi strætó og segja það ekki ganga upp. Krakkar þurfi að ganga langar vegalengdir til þess að nýta sér þjónustuna og staðsetning á snúningsplani sé beinlínis hættuleg.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis-og skipulagssviðs Reykjanesbæjar sagði í svari við fyrirspurn að töluvert af athugasemdum og ábendingum hafi borist frá bæjarbúum vegna breytinga á leiðakerfi strætó, sem tók gildi þann 6. janúar síðastliðinn. Þá er í gangi undirskriftasöfnun vegna breytinganna.