Nýjast á Local Suðurnes

Stór hafís sést vel frá Sandgerði – myndir!

Töluverður hafís liggur nú rétt utan við Sandgerði. Ísbrúnin sést nokkuð vel frá landi, meðal annars frá golfvellinum í Sandgerði.

Halldór Nellett, skipherra á varðskipinu Þór, tilkynnti fyrst um ísröndina í gærkvöldi og sendi viðvörun á sjófarendur, en skipið hefur undanfarið verið við eftirlit á svæðinu.

Halldór segir ísinn vera tættan enda norðlægar áttir á svæðinu, en þó má sjá nokkra vel stóra jaka. Ísinn rekur hratt til suðsuðvesturs og sést illa á ratsjá.

Veður og vindar voru með þeim hætti Landhelgisgæslunni þótti líklegt að hafís væri á svæðinu og gæti rekið hratt að landi. Þá var gripið til þess ráðs að leita til Ingibjargar Jónsdóttur, hafísfræðings hjá Veðurstofunni, sem brást skjótt við og útvegaði Landhelgisgæslunni afar góðar gervitunglamyndir sem nýttust áhöfninni á Þór vel við hafíseftirlitið.

Meðfylgjandi myndir sýna ísinn frá sjónarhorni áhafnarinnar á Þór auk þess má sjá símamyndir sem teknar eru frá golfvellinum í Sandgerði.