Nýjast á Local Suðurnes

Stefnt að gangsetningu USi á sunnudag – Mæla loftgæði inn á heimili í Rekjanesbæ

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Stefnt er að gangsetningu ofns kísilmálverksmiðju United Silicon hf. í Helguvík sunnudaginn 21. maí næstkomandi kl. 16:00, með samþykki Umhverfisstofnunar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í kjölfar ítarlegrar úttektar og ábendinga norska ráðgjafafyrirtækisins Multikonsult hefur verið unnið að endurbótum og lagfæringum á búnaði verksmiðjunnar. Þess utan hefur verið ráðist í frekari framkvæmdir og úrbætur á búnaði, að tillögu stjórnenda fyrirtækisins. Þessum framkvæmdum er nú lokið. Næsta skref í úrbótaáætlun fyrirtækisins er úttekt Multikonsult á verksmiðjunni með ofninn í rekstri en gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að þremur vikum að ná upp fullum afköstum og stöðugum rekstri ofnsins. Norsku ráðgjafarnir munu vinna áfram með fyrirtækinu í kjölfar gangsetningar, segir jafnframt í tilkynningunni.

Norska loftrannsóknastofnunin NILU mun mæla loftgæði inni í verksmiðjunni og í nágrenni hennar þar á meðal inni á heimili í Reykjanesbæ þar sem lyktar hefur orðið vart.  Til að fá áreiðanlegar mælingar á loftgæðum og til að ákveða aðgerðir sem takmarka að lykt berist frá verksmiðjunni í framtíðinni, er nauðsynlegt að keyra ofninn á mismundandi álagi.  Við þær aðstæður má reikna með að einhver lykt muni berast frá verksmiðjunni. Markmið mælinga er einnig að fá óyggjandi vissu um hvaða efni geti borist frá verksmiðjunni við ólíkar aðstæður og í hvaða magni, svo unnt sé að grípa til viðeigandi aðgerða.

Veðurspá Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir sunnanátt  á gangsetningardegi.

Það er von stjórnenda United Silicon hf. að með þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að undanfarnar vikur og áfram er unnið að, takist að vinna bug á þeim vandamálum sem komið hafa upp í rekstri verksmiðju fyrirtækisins í Helguvík og valdið hafa íbúum á Suðurnesjum óþægindum og áhyggjum.