Nýjast á Local Suðurnes

Stefna að yfirráðum í öllum verkalýðsfélögunum í Reykjanesbæ – “Þarf að hlaða í framboð”

Hart er barist í stjórnarkjöri í Verslunarmannafélagi Suðurnesja (VS), en tvær fylkingar vilja sjá til þess að hagur launþega á Suðurnesjum vænkist næstu tvö árin sem stjórn félagsins starfar. Fylkingarnar tvær eru framboð A-lista, sem skipað er fulltrúum núverandi stjórnar félagsins og B-lista sem er að mestu skipaður starfsfólki Icelandair og dótturfélags þess, flugþjónustufyrirtækisins IGS.

Síðarnefndi hópurinn virðist þó stefna lengra ef eitthvað er að marka umræður á Fésbókarsíðu Sósílistaflokks Íslands, en þar segir Þórólfur Júlían Dagsson, sem hefur vakið athygli fyrir öfluga framgöngu í samtökum Andstæðinga stóriðju í Helguvík auk þess að leiða lista Pírata í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnakosningar, að fram sé komið framboð vegna stjórnarkjörs í VS og að “hlaða þurfi í framboð” vegna kosninga í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur (VSFK) auk Starfsmannafélags Suðurnesja, en í þeim félögum fer stjórnarkjör fram á næsta ári.

Mynd: Skjáskot/Facebook Sósíalistaflokkurinn

Í öðrum líflegum umræðum á Facebook, sem finna má hér fyrir neðan, sver Þórólfur Júlían þó af sér tengsl við framboð B-lista til stjórnarkjörs í VS, en segist þó hafa gengið í félagið nýlega til þess að sjá hvað bæði framboð hafa upp á að bjóða.

Það er því ljóst að slagurinn um stjórnir verkalýðsfélaganna í Reykjanesbæ á eftir að harðna, en þann 12. apríl næstkomandi fer fram félagsfundur í VS þar sem greidd verða atkvæði um hvort skilafrestur á framboðsgögnum vegna stjórnarkjörs verði framlengdur, en eins og greint hefur verið frá var framboð B-lista dæmt ógilt af kjörstjórn.