Nýjast á Local Suðurnes

Stefna á aukinn fjölda hjúkrunarfræðinema – Vantar menntað og hæft starfsfólk á HSS

Hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) stunda nú 15 einstaklingar fjarnám í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Þessir einstaklingar eiga allir það sameiginlegt að búa á Suðurnesjum með sínum fjölskyldum og vilja geta gert það áfram. Stefnt er að því að að auka fjölda hjúkrunarfræðinema hjá MSS í fjarnámi um 50%

Verkefnið er hluti af áhersluverkefni í menntamálum og snýr a því að hækka menntunarstig á Suðurnesjum sem og bregðast við þörfum samfélagsins á Suðurnesjum um fleiri útskrifaða hjúkrunarfræðinga. Fjarnám í hjúkrunarfræðum krefst þess að kennslustofa sé föst, búnaður fyrir hendi og að ábyrgur aðili geti aðstoða nemendur.

Verkefnið fékk fjögurra milljóna króna framlag úr Sóknaráætlun Suðurnesja, en ekki átti að taka inn nýja nemendur í fjarnám í hjúkrunarfræðum á Suðurnesjum nema til kæmi að verkefnið yrði styrkt.

Mikilvægt er fyrir samfélagið að fá útskrifaða hjúkrunarfræðinga en Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er mikilvæg stofnun og mikil þörf á að tryggja að menntað og hæft starfsfólk komi til starfa þangað.

MSS hefur síðan árið 2000 gefið einstaklingum í þessari stöðu tækifæri til að stunda nám í heimabyggð. Alls stunda 120 einstaklingar fjarnám í gegnum MSS en af þeim eru 15 einstaklingar sem eru í hjúkrunarfræði. Áætluð útskrift hjá þeim er 2019. Mikilvægt er að bjóða nemendum aðstöðu til að stunda háskólanám sitt.