Nýjast á Local Suðurnes

Starfsfólk Isavia sem vinnur fyrir Landspítala heldur sínum kjörum – Stefnt á víðara samstarf

Mynd: Isavia

Nú hafa níu starfsmenn úr flugverndardeild Isavia á Keflavíkurflugvelli hafið störf hjá Landspítalanum við öryggisgæslu bæði á starfsstöð spítalans í Fossvogi og eins á Hringbraut, eftir að hafa hlotið þjálfun hjá starfsfólki spítalans.

Samningurinn er sá að starfsfólk heldur sínum kjörum hjá Isavia og vinna eftir fyrirkomulagi sem hefur verið samið um milli Landspítalans og Isavia. Öll þau úr hópi starfsfólks Isavia sem leitað var til vegna þessa verkefnis segjast mjög jákvæð fyrir þessu verkefni og eins því að geta lagt spítalanum lið á þessum erfiðu tímum. Þá er einnig verið að skoða það að starfsfólk Isavia manni vöruhús Landspítalans að Tunguhálsi, en ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum.

Það er okkur mikið ánægjuefni að geta lagt okkar af mörkum fyrir heilbrigðiskerfið á þessum miklu álags og óvissutímum. Einnig er það gleðilegt að horft sé til starfsfólks okkar hjá Isavia til að vinna að svo mikilvægum verkefnum og er það staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið af starfsfólki okkar síðustu ár, segir í tilkynningu á vef Isavia..