sudurnes.net
Spurt og svarað varðandi heitavatns- og rafmagnsleysi - Local Sudurnes
Almannavarnir hafa sett upp lista þar sem algengum spurningum varðandi heitavatns- og rafmagnsleysi er svarað auk leiðbeininga frá félagi pípulagningameistara. Hér fyrir neðan má sjá svör við algengustu spurningunum sem hafa borist: Spurt og svarað / Reykjanes Hvernig get ég best haldið hitanum í íbúðinni hjá mér? Á heimasíðu Almannavarna má finna góðar leiðbeiningar varðandi húshitun við þessar aðstæður. Draga þarf úr loftskiptum í íbúðinni nema ef verið er að nota gas til hitunar þá þarf að lofta. Hvaða rafmagnstæki má ég nota? Núna munar um allt til að draga úr rafmagnsnotkun. Mikið álag er á dreifikerfi rafmagns í öllum hverfum á Suðurnesjum svo Almannavarnir mælast eindregið til þess að fólk bíði með notkun á ryksugum, þvottavélum, þurrkurum og öðrum tækjum sem taka mikla orku. Eðlileg notkun bakaraofna skilar varmanum inn í íbúðina svo ekki þarf að draga úr slíkri notkun. Ég náði ekki að kaupa hitara, hvernig á ég þá að hita mína íbúð? Verið er að vinna í að koma fleiri rafmagnshiturum til landsins. Algengt er að fólk eigi slíka hitara til svo gott er að kanna meðal vina og vandamanna hvort þeir geti lánað tæki. Hitablásararnir eru væntanlegir til landsins í dag. Hægt er að fylgjast með hjá helstu söluaðilum. [...]