Nýjast á Local Suðurnes

Spá stormi síðdegis – Akstursskilyrði á Reykjanesbraut geta orðið varasöm

Vegagerðin varar við því að akstursskilyrði geti orðið varasöm á Reykjanesbraut síðdegis þegar saman fer mikið vatnsveður og sterkur hliðarvindur, en spáð er Suðaustan hvassviðri eða stormur S- og V-lands síðdegis.

Gert er ráð fyrir allt að 23 metrum á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu og mikilli rigningu. Í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands er fólk hvatt til að hreinsa frá niðurföllum svo regnvatnið fái eðlilegan farveg.

“Það mun rigna talsvert sunnanlands næstu tvo sólarhringa og hið sama á við um Vesturland, þó úrkoman þar verði án efa meira staðbundin. Því er um að gera að tryggja að niðurföll séu óteppt svo regnvatnið fái eðlilegan farveg til sjávar. Regnið getur einnig valdið leiðinlegum akstursskilyrðum ef vatn safnast fyrir á vegum, akið því varlega.” Segir veðurfræðingur.