Nýjast á Local Suðurnes

Slagsmál og læti um borð í vél Wizz Air

Óskað var í vikunni eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum vegna óláta um borð í flugi Wizz Air W61773 frá Gdansk til Keflavíkur. Nefnt var að slagsmál væru um borð.

Þegar lögreglumenn mættu á staðinn var komin á ró í  vélinni en þeim var tjáð að tveir úr tíu manna hópi farþega hefðu drukkið eigið áfengi þrátt fyrir tilmæli um að gera það ekki og látið ófriðlega. Annar þeirra hefði verið mjög árásargjarn og búið sig undir að slá flugþjón sem gekk á milli tvímenninganna umræddu til að skakka leikinn eftir að slegið hafði í brýnu á milli þeirra. Voru þeir eftir það skildir að og færðir í önnur sæti í vélinni.

Annar mannanna, sem var sjáanlega undir miklum áhrifum áfengis, var verulega ósáttur við afskipti lögreglu og sýndi hann m.a. af sér ógnandi tilburði og almenn leiðindi. Var honum fylgt í gegnum flugstöðina og komið í hendur aðila sem mættur var til að sækja hópinn sem hverfur til starfa hér á landi.