Nýjast á Local Suðurnes

Skortur á dagforeldrum í Grindavík – Vilja fjölga daggæslurýmum í sveitarfélaginu

Grindavíkurbær vekur athygli á því á heimasíðu sinni að mikil eftirspurn sé eftir þjónustu dagforeldra í sveitarfélaginu. Þar kemur fram að nú sé gott tækifæri fyrir áhugasama einstaklinga til að afla sér leyfis til að sinna daggæslu í heimahúsi.

Grindavíkurbær hefur á undanförnum misserum lagt sig fram við að bæta starfsumhverfi dagforeldra í þeirri viðleitni að fjölga og viðhalda daggæslurýmum í sveitarfélaginu.

Þá kemur fram á heimasíðunni að dagforeldrum í Grindavík standi eftirgreint til boða:

• 100% námskeiðsstyrkur
• Árlegur búnaðarstyrkur að fjárhæð kr. 50.000
• Niðurgreiðslur sveitarfélagsins á daggæslugjöldum
o Vegna einstæðra foreldra kr. 55.000, miðað við 8 klukkustunda vistun frá 1. september 2016
o Vegna hjóna/sambúðarfólks kr. 65.000, miðað við 8 klukkustunda vistun frá 1. september 2016
o 50% aukaniðurgreiðsla vegna gæslu eigin barna
o Viðbótarniðurgreiðsla vegna barna sem komin eru á leikskólaaldur
• Starfsdagar dagforeldra eru þrír á ári, þar af einn skipulagður af hálfu daggæslufulltrúa

Félagsmálanefnd Grindavíkurbæjar veitir leyfi til daggæslu barna í heimahúsum að uppfylltum skilyrðum. Lágmarksaldur umsækjenda er 20 ára aldur. Um starfsemina gildir reglugerð nr. 907/2005 um daggæslu í heimahúsum.