Nýjast á Local Suðurnes

Skora á ráðherra – Ekki hægt að bíða lengur eftir heilsugæslu

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja starfsemi nýrrar heilsugæslu hér á Suðurnesjum sem allra fyrst og alls ekki seinna en 1. október 2021.

Bókun bæjarstjórnar, sem allir bæjarfulltrúar rituðu nafn sitt við, má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

 “Verkefnið er aðkallandi enda búa tæplega 28 þúsund manns á Suðurnesjum. Á svæðinu er aðeins ein heilsugæslustöð sem hönnuð var fyrir einungis hluta af þessum fjölda.

Uppi hafa verið fyrirheit um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar en verkefnið gengur seint. Nokkurra ára bið eftir að ný heilsugæsla taki til starfa er með öllu óásættanlegt. Slík staða mætir ekki núverandi ástandi og þörf íbúa Reykjanesbæjar fyrir lögbundið aðgengi að heilbrigðiskerfinu.

Um fjögur þúsund íbúar sækja heilsugæsluþjónustu til höfuðborgarsvæðisins, því fyrsti viðkomustaður heilbrigðiskerfisins í heimabyggð annar ekki þeim fjölda sem hér býr. Nýverið sagði HSS upp lögbundinni heilbrigðisskoðun starfsfólks Brunavarna Suðurnesja sem þarf því að leita annað. Aðstaða heilsugæslu HSS er óboðleg fyrir starfsfólk stofnunarinnar eins og úttektir Landlæknisembættisins hafa ítrekað sýnt fram á.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar og Suðurnesjamenn allir eru einhuga í þessari kröfugerð og binda vonir til þess að ríkisvaldið bregðist strax við þessari málaleitan. Íbúar Suðurnesja geta ekki beðið lengur.

Bæjarstjórn lýsir því jafnframt yfir að hún muni beita öllum tiltækum ráðum með hagaðilum svo af þessu verði enda er sú staða sem uppi er í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum ekki boðleg. Það ætti ekki að vera neinum erfiðleikum bundið að finna tímabundið húsnæði fyrir heilsugæslu á meðan unnið er að langtímaúrræði. Íbúar á svæðinu eiga rétt á að þjónustan verði bætt án tafar.“