Nýjast á Local Suðurnes

Skólastarf með hefðbundnum hætti á ný

Mynd: Facebook- Ozzo

Frá og með mánudeginum 4. maí falla alveg niður takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum og einnig fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Einnig munu framhalds- og háskólar opna á ný.

Skólastarf í grunnskólum verður með hefðbundnum hætti. Útfærsla viðburða eins og vorhátíða, vorferða og útskrifta taka mið af tilmælum sóttvarnarlæknis um fjölda- og fjarlægðartakmarkanir fullorðinna.

Forgangslistar almannavarna vegna starfa foreldra í framlínuþjónustu falla úr gildi og börn þeirra fá sambærilega þjónustu og önnur börn. Áskriftir skólamáltíða taka aftur gildi og gjaldskrá í frístundaheimilum tekur aftur gildi.

Leikskólar Reykjanesbæjar verða opnir að fullu frá og með 4. maí fyrir þau börn sem þar dvelja. Umferð fullorðinna inni í leikskólunum verður þó takmörkuð eins og hægt er með góðu móti. Forgangslistar almannavarna vegna starfa foreldra í framlínuþjónustu falla úr gildi og börn þeirra fá sambærilega þjónustu og önnur börn.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar fer úr fjarkennslu yfir í hefðbundið kennsluform. Hljóðfærakennsla í grunnskólunum hefst að nýju, sem og forskólakennslan (1. og 2. bekkur). Önnur hljóðfærakennsla, söngkennsla og meðleikur fer að nýju fram í tónlistarskólanum. Allar tónfræðagreinar færast aftur inn í tónlistarskólann og hljómsveita- og samspilsstarf verður með þeim hætti sem hæfir hverjum hópi þær fáu vikur sem eftir lifir af skólaárinu.

Stefnt er að því að halda alla vortónleika, sem og tónleika nemenda á framhaldsstigi, en án tónleikagesta.