Nýjast á Local Suðurnes

Skólabörn í bráðri hættu vegna hraðaksturs

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Voga segir skólabörn vera í stórhættu vegna hraðaksturs á Stapagötu, en nýlega uppsettar hraðamyndavélar við götuna sýna að nær allir ökumenn aka of hratt um götuna.

Ásgeir segir í pistli á heimasíðu Voga að ökumenn aki um götuna á allt að þreföldum hámarkshraða.

“Skoðum tölfræðina frá Stapaveginum. Munum að Stapavegurinn er inni í bænum, og það er 30 km hámarkshraði á klukkustund. Samkvæmt greiningunni var meðalhraði allra ökutækja sem um götuna fóru á tímabilinu 1. – 13. mars 53 km/klst. Sá sem hraðast ók mældist á 93 km hraða á klst. Þetta er meira en þrefaldur hámarkshraði, og flokkast væntanlega undir ofsaakstur. Slíkur akstur varðar ökuleyfissviptingu.
HÁMARKSHRAÐINN ER 30 KM/KLST – ÞETTA ER INNI Í MIÐJUM BÆ!!!!
Hvers konar framkoma er þetta eiginlega? Hvað á það að þýða að nánast allir sem aka fram hjá þessu skilti virða ekki hámarkshraðann? Ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hvað hitt hraðaviðvörunarskiltið segir okkur
– það eru verri tölur. Það sjáum við hraða sem mælist í þriggja stafa tölum. Þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst.
Berum við enga virðingu lengur fyrir leikreglunum í samfélaginu? Gefum við einfaldlega skít í öryggi gangandi vegfarenda – sérstaklega barnanna okkar? Er hámarkshraðinn einungis til þess að skreyta sig með á
tyllidögum? Það er fjöldinn allur af skólabörnum sem fer yfir þessa götu á hverjum degi á leið sinni til og frá skóla – samkvæmt þessu eru þau í bráðri hættu. Sem betur fer hafa ekki nein slys orðið á gangandi vegfarendum hjá okkur – en samkvæmt þessum mælingum er hættan til staðar.
Góðir hálsar! Þetta er grafalvarlegt mál, sem við sem samfélag eigum ekki að líða – og alls ekki láta viðgangast. Tökum höndum saman, tökum okkur á og sýnum ábyrga hegðun í umferðinni. Það að aka umfram leyfilegan hámarkshraða flýtir för okkar einungis um örfáar sekúndur, sem á ögurstundu geta reynst örlagaríkar og dýrkeyptar. Líf og heilsa barnanna okkar og annarra vegfarenda eru í húfi.” Segir Ásgeir meðal annars í pistli sínum.