Nýjast á Local Suðurnes

Skóla- og íþróttafólk úr Vogum fékk styrki fyrir góðan árangur

Úthlutað hefur verið árlegum styrkjum úr Mennta-, menningar- og afrekssjóði Sveitarfélagsins Voga. Veittur var peningastyrkur til þeirra þriggja nemenda sem náðu bestum árangri á grunnskólaprófi í Stóru-Vogaskóla s.l. vor, ásamt því sem veittir voru styrkir til þeirra nemenda sem luku námi á 2. ári framhaldsskóla og þeim sem luku stúdentsprófi úr framhaldsskóla á tilsettum tímum.

Þá var Knattspyrnudeild Þróttar einnig veittur styrkur úr sjóðnum, en meistaraflokkur karla náði þeim glæsta árangri á nýliðinni leiktíð að komast upp um deild og munu því keppa í þriðju deild að ári.

Sveitarfélagið efndi til móttöku í Álfagerði þar sem viðurkenningarnar voru afhentar. Nemendur eða fulltrúar þeirra tóku við viðurkenningarskjölunum, en Páll Guðmundsson fyrirliði meistaraflokks karla veitti viðurkenningu knattspyrnudeildar viðtöku.